Sjálfstæðismenn og framsóknarmenn fóru þess á leit við þingflokk Borgarahreyfingarinnar að vera flutningsmenn að ESB-tillögu sinni sem dreift var á Alþingi í morgun. Borgarahreyfingin hafnaði hins vegar þeirri málaleitan.

„Okkur fannst þetta [tillaga sjálfstæðismanna og framsóknarmanna - innsk. blm] vera óþarfa málþóf," segir Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Borgarahreyfingarinnar, í samtali við Viðskiptablaðið.

Hún segir að þegar ESB-tillaga Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra fari til umfjöllunar í utanríkismálanefnd þingsins verði hægt að koma athugasemdum og breytingartillögum á framfæri.

Borgarahreyfingin hafi sett þrjú skilyrði fyrir stuðningi sínum við ESB-tillögu stjórnarinnar og kveðst Birgitta ekki eiga von á öðru en að fallist verði á þau. „Verði hins vegar ekki fallist á þau skilyrði þá munum við ekki styðja tillöguna," segir hún. „Það eru hins vegar engin hrossakaup í kringum þetta. Það hefur alltaf verið skýrt hvað við viljum í þessu."

Bætir ekki miklu við

Össur mælti fyrir tillögunni um aðildarumsókn að Evrópusambandinu í morgun og er það eina dagskrármál þingsins í dag. Birgitta segir tillöguna rýra „en mér finnst tillaga stjórnarandstöðunnar ekki bæta miklu við," segir hún og bætir því við að tillöguflutningur Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sé „óþarfa leikrit."

Hún kveðst að lokum vera talsmaður þessa að farið verði yfir málið á vandaðan hátt í utanríkismálanefnd.

Fyrrgreind skilyrði Borgarahreyfingarinnar snúast um gegnsæi og fræðslu um málið, að samninganefnd verði skipuð á faglegum forsendum og að tryggt verði jafnt vægi atkvæða allra landsmanna við þjóðaratkvæðagreiðslu um samninginn.