Ljóst er að til viðbótar um 14% vexti í flugi Icelandair á næsta ári, má gera ráð fyrir auknu framboði annarra yfir hásumarið, þannig að í heild má búast við umtalsverðri fjölgun ferðamanna á landinu á næsta ári.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair en í dag fer fram árlegur markaðsfundar félagsins. Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri félagsins, kynnti í morgun horfur og áherslur í starfsemi þess á næsta ári.

Flugáætlun Icelandair fyrir árið 2012 er sú stærsta í sögu þess og um 14% umfangsmeiri en á þessu ári. Nýr heilsárs áfangastaður, Denver í Colorado, bætist við og ferðum er fjölgað til ýmissa borga í Bandaríkjunum og Evrópu. Gert er ráð fyrir að farþegar félagsins verði um 2 milljónir á árinu 2012.

„Við kynntum áætlun okkar fyrir rúmum tveimur mánuðum og bókanir síðan þá hafa verið sterkar og lofa góðu fyrir næsta ár. Sérstaklega er ánægjulegt hversu vel bókanir til og frá Denver hafa farið af stað,“ segir Birkir Hólm í tilkynningunni.

„Að undanförnu hafa aðrir verið að boða komu sína á flugmarkaðinn til og frá Íslandi, sem er viðurkenning fyrir ferðaþjónustuna. Sú viðbót er þó langmest yfir hásumarið. Hvað Icelandair varðar er ætlunin að auka ferðamannastraum utan háannatímans meðal annars með því að hefja flug til og frá Denver allt árið um kring og auka vetrarframboð hlutfallslega meira en yfir sumarið. Vetraráætlun 2012-2013 verður þannig meiri að umfangi en sumaráætlun var fyrir tveimur árum.“

Auk fjögurra vikulegra ferða til nýja áfangastaðarins mun Icelandair fjölga ferðum til Washington og Seattle í Bandaríkjunum, til allra höfuðborga Norðurlandanna og Þrándheims, Stavanger og Bergen í Noregi, til Billund í Danmörku, til Munchen, Amsterdam, Brussel og Parísar á meginlandi Evrópu og til Manchester og Glasgow á Bretlandseyjum. Alls verða áfangastaðirnir 31 á næsta ári.

„Leiðakerfið gefur okkur tækifæri til sveigjanleika og m.a. til þess að auka nú framboð og fjölga ferðamönnum umfram það sem gerist í þessum heimshluta", segir Birkir Hólm.

Á markaðsfundinum í dag kynna sérfræðingar og stjórnendur Icelandair á erlendum mörkuðum þær rannsóknir á stöðu og horfum í efnahagsmálum og ferðaheiminum sem félagið byggir áætlanir sínar á.