Birna Ósk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs hjá Icelandair, hefur óskað eftir að láta af störfum hjá félaginu á næstunni. Hún mun áfram starfa hjá flugfélaginu næstu mánuði og aðstoða við yfirfærslu verkefna þegar þar að kemur. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Birna Ósk tók við starfinu í febrúar 2019 eftir að hafa starfað sem framkvæmdastjóri þjónustuupplifunar og framkvæmdastjóri stefnumótunar og viðskiptaþróunar frá því að hún hóf störf hjá Icelandair í janúar 2018.

Birna Ósk segir á starfsmannavef félagsins að hún muni taka við starfi í framkvæmdastjórn APMT, dótturfélagi Maersk, á næsta ári. Hún mun flytja með fjölskyldu sinni til Hollends á næstunni en höfuðstöðvar APMT eru í borginni Haag. Birna Ósk segir að ákvörðunin um að kveðja Icelandair, nú „þegar hjólin eru byrjuð að snúast á ný“, hafi verið allt annað en einföld og að það hafi aldrei staðið annað til hjá henni en að halda áfram hjá Icelandair.

Birna Ósk Einarsdóttir:

„Síðustu fjögur ár hafa verið mögnuð reynsla. Að takast á við miklar áskoranir með framúrskarandi fólki alls staðar í fyrirtækinu með það að markmiði að halda uppi merkjum Íslands alþjóðlega. Ég er þakklát fyrir að hafa verið treyst fyrir þessu mikilvæga hlutverki, fyrir samstarfsfólk mitt og fyrir þá reynslu sem ég hef öðlast á þessum tíma. Það er óneitanlega erfitt að kveðja en á sama tíma mun ég stolt fylgjast með félaginu taka flugið á ný inn í framtíðina.”

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group:

„Ég þakka Birnu Ósk fyrir frábær störf og mikilvægt framlag til félagsins á undanförnum árum. Undir forystu hennar hefur sölu- og þjónustusvið Icelandair verið styrkt verulega þar sem upplifun viðskiptavinarins er í forgrunni. Þá hefur hún leitt mikilvæg verkefni í gegnum mjög krefjandi tíma. Ég óska henni til hamingju með nýtt tækifæri á erlendri grundu og alls hins besta í framtíðinni.“

Þetta er þriðja breytingin á framkvæmdastjórn Icelandair á stuttum tíma en félagið tilkynnti um miðjan septembermánuð að Jens Þórðarson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs, hafi ákveðið að láta af störfum en hann hafi gengt stöðunni frá janúar 2018. Þá hætti Eva Sóley Guðbjörnsdóttir, þáverandi framkvæmdastjóri fjármála, hjá flugfélaginu í maí en Ívar Sigurður Kristinsson tók við stöðunni.

Fréttin var uppfærð eftir að Birna Ósk sendi frá sér tilkynningu á starfsmannavef Icelandair.