„Þar sem stjórnvöld hafa enn ekki birt nýja Icesave samninga opinberlega hafa þeir verið gerðir aðgengilegir á vefslóðinni http://icesave3.wordpress.com/ ," segir í tilkynningu sem send var nafnlaust á fjölmiðla seint á mánudagskvöld. Undir er skrifað „Samtök áhugafólks um opna stjórnsýslu".

Á vefslóðinni má hala niður sjálfa samningana og á þeim er hægt að sjá undirskrift þeirra sem sátu í samninganefndinni. Virðist þetta því vera sjálf frumgögnin sem samninganefndin hefur nú lagt á borð þingmanna og hafa verið skönnuð inn til birtingar á tölvutæku formi.

Ríkisstjórnin hefur birt samantekt úr Icesave samkomulaginu á heimasíðu Stjórnarráðsins. Auk þess hefur samninganefndin og formaður hennar, Lee Buchheit, setið fyrir svörum fjölmiðla. Hins vegar hefur ríkisstjórnin ekki birt sjálfa samningana í heild sinni.