*

mánudagur, 23. nóvember 2020
Innlent 29. september 2016 18:30

Birta lífeyrissjóður stofnaður

Sameinaði lífeyrissjóðurinn og Stafir eru saman orðnir að fjórða stærsta lífeyrissjóði landsins.

Ritstjórn
Ólafur Sigurðsson er framkvæmdastjóri Stafa lífeyrissjóðs sem sameinast hefur Sameinaða lífeyrissjóðnum undir nafni Birtu.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Sjóðfélagar Sameinaða lífeyrissjóðsins og Stafa lífeyrissjóðs samþykktu á aukaársfundum í dag að sameina sjóðina, en sameiningin hefur verið í bígerð um nokkurt skeið. Í kjölfarið var haldinn stofnfundur nýja sjóðsins sem hlotið hefur nafnið Birta lífeyrissjóður.

Í tilkynningu kemur fram að nýr lífeyrissjóður verður sá fjórði stærsti á Íslandi með yfir 18.000 virka sjóðfélaga og hreina eign upp á um 310 milljarða króna, sem er um tíundi hluti heildareigna allra lífeyrissjóða landsins.

Á stofnfundinum var kynnt tíu manna stjórn Birtu og meðal fyrstu verkefna hennar eru að ráða framkvæmdastjóra nýja lífeyrissjóðsin og finna sjóðnum húsnæði til framtíðar. Stefnt er að því að starfsemi í nafni Birtu lífeyrissjóðs hefjist fyrir lok ársins, undir sama þaki.

Viðræður um sameiningu Sameinaða lífeyrissjóðsins og Stafa hófust í byrjun maí 2016. Sameinaði lífeyrissjóðurinn varð til í ársbyrjun 1992 með sameiningu Lífeyrissjóðs byggingarmanna og Lífeyrissjóðs málm- og skipasmiða. Síðar bættust við lífeyrissjóðir bókagerðarmanna, garðyrkjumanna, múrara, verkstjóra og fleiri. Stafir lífeyrissjóður varð til við samruna Samvinnulífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðsins Lífiðnar í ársbyrjun 2007. Til Stafa greiða starfsmenn fyrirtækja sem áður tilheyrðu Sambandi íslenskra samvinnufélaga og félagsmenn í Rafiðnaðarsambandi Íslands og Matvæla- og veitingafélagi Íslands.