*

laugardagur, 8. maí 2021
Erlent 16. desember 2020 15:42

Bitcoin rýfur 20 þúsund dala múrinn

Verð rafmyntarinnar hefur aldrei verið hærra, og samsvarar 1 bitcoin nú ríflega 2,6 milljónum íslenskra króna.

Ritstjórn
epa

Rafmyntin Bitcoin fór í dag í fyrsta sinn í sögunni yfir 20 þúsund Bandaríkjadali, eftir 5,6% hækkun í dag og nemur gengið nú um 20.600 dölum, eða ríflega 2,6 milljónum íslenskra króna.

Þar með hefur verð rafmyntarinnar hækkað um 180% á einu ári, en greinendur segja að verðgildi hennar hafi notið þess að þekktir fjárfestar eins og Paul Tudor Jones og Stanley Druckenmiller hafi flutt eignir í Bitcoin.

Jafnframt hafi fyrirtæki eins og Square og MicroStrategy keypt rafmyntina sem og breska eignarhaldsfélagið Ruffer sem tilkynnti um það í gær að um 2,5% af 20,3 milljarða punda, eða sem nemur nærri 3.500 milljörðum íslenskra króna, heildareignum í stýringu félagsins.

Bitcoin hefur áður náð nálægt þessum hæðum en verð hennar náði nærri því upp í 20 þúsund Bandaríkjadali árið 2017, en svo féll verðið árið eftir niður í 3 þúsund dali. Áhugamenn um rafmyntir segja ólíklegt að álíka sveifla endurtaki sig því nú sé hækkunin keyrð áfram af áhuga stofnanafjárfesta en ekki einungis af spákaupmennsku.

„Við höfum séð mikla breytingu í uppbyggingu þeirra hópa sem eru áhugasamir um og fjárfesta í rafmyntum. Þær eru ekki lengur einungis áhugasvið tölvuforritara og fjártæknifrumkvöðla,“ hefur CNBC eftir Yoni Assia meðstofnanda og framkvæmdastjóra fjárfestingarappsins eToro.

Vísitölufyrirtækið S&P Dow Jones Indices á Wall Street hafa jafnfamt sýnt rafmyntum aukin áhuga og er stefnt að því að koma á fót vísitölu rafmynta.

Stikkorð: Bitcoin rafmyntir