Bjarki A. Brynjarsson mun sinna starfi forstjóra Marorku tímabundið þar til nýr aðili verður fundinn í starfið eftir að stofnandinn Jón Ágúst Þorsteinsson hætti sem forstjóri um áramótin. Jón Ágúst verður stjórnarformaður Marorku eftir breytingarnar.

Bjarki lauk prófi í verkfræði frá Háskóla Íslands árið 1990 og dr. ing. prófi frá Tækniháskólanum í Þrándheimi 1995. Með fram námi í Noregi starfaði hann sem verkefnisstjóri hjá verkfræðifyrirtækinu SINTEF við hönnun og iðnþróun á sviði upplýsingatækni og fjarskipa.

Bjarki hefur starfað frá því júní 2011 í fyrirtækjaráðgjöf H.F. verðbréfa en gegndi áður stöðu formanns Lífeyrissjóðs Verkfræðinga í rúmt ár. Hann hefur áður gengt ýmsum stjórnunarstörfum á sviði fjármála, nýsköpunarstarfsemi og háskólastarfs, til dæmis hjá Askar Capital, Kaupþingi, Nýherja og Háskólanum í Reykjavík. Um tíma var Bjarki deildarforseti Tækni- og verkfræðideildar HR.

Lá í loftinu

Eins og fram kom í viðtali við Jón Ágúst í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins, þá lá það fyrir að brátt myndi koma til breytinga á stjórn Marorku. „Það er kominn tími til að fara upp úr skurðinum og líta yfir farinn veg. Ég gæti alveg séð það fyrir mér að breyta til einhvern veginn. Menn brenna út á þessu en ég hugsa að ég verði nú alltaf mjög nálægt félaginu. Það er kannski að koma tími á að hvíla sig á þessum daglega rekstri og komast frá honum aðeins. Það þarf líka að horfa líka á hlutina til lengri tíma. Svona félag þarf á því að halda. Það eru mikil átök framundan og mikil uppbygging og ferðalög. Það er ágætt að vera einhver staðar í yngri kantinum í því," sagði Jón Ágúst meðal annars í viðtalinu. Mikill tími hefur til þesssa farið í ferðalög og taldi hann tíma til kominn að setjast sjálfur niður og gefa öðrum ráð og halda sig aðeins tilbaka.