Bjarni Ármannsson, forstjóri Glitnis, var kjörinn á fundi í dag nýr formaður háskólaráðs Háskólans í Reykjavík (HR), segir í fréttatilkynningu.

Á fundinum lét Sverrir Sverrrisson af formennsku í ráðinu, segir í tilkynningunni, en hann hefur setið í háskólaráði frá stofnun HR árið 1998, þar af síðustu sex árin sem formaður ráðsins.

Aðrir sem sitja í háskólaráði HR eru Finnur Geirsson, Jón Ágúst Þorsteinsson, Jón Sigurðsson, Katrín Pétursdóttir, Sjöfn Sigurgísladóttir og Þór Sigfússon, sem kemur nýr inn í ráðið. Varamenn eru Eggert Guðmundsson, Kristín S. Hjálmtýsdóttir og Sigurður B. Guðmundsson.

Á næsta ári hefjast framkvæmdir við nýtt húsnæði Háskólans í Reykjavík í Vatnsmýri, en ráðgert er að skólinn hefji starfsemi þar í 32.000 fermetra húsnæði haustið 2009.

Í síðustu viku var ákveðið að hefja viðræður um hönnun bygginga og skipulag svæðisins, sem er um 20 hektarar að flatarmáli, við hóp arkitekta sem samanstendur af Henning Larsen Tegnestue A/S frá Danmörku og Arkís ehf. og Landmótun ehf. frá Íslandi.

Nemendur Háskólans í Reykjavík verða um 2.800 í haust, og hefur fjöldi þeirra nífaldast frá því hann tók til starfa árið 1998. Gert er ráð fyrir enn frekari fjölgun nemenda á næstu árum; áætlað er að nemendur verði 3500 þegar skólinn flytur í Vatnsmýrina.