Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur miklar áhyggjur af því að þær launahækkanir sem stéttarfélög fara fram á muni skila sér beint inn í verðlag í formi verðbólgu. Þetta segir Bjarni í ítarlegu viðtali við Hjálma, blað hagfræðinema við Háskóla Íslands, sem kom út með Viðskiptablaðinu í morgun.

„Ég er þeirrar skoðunar að það sé alveg augljóst hvað gerist ef þær kröfur sem við höfum heyrt af í fjölmiðlum næðu fram að ganga heilt yfir á vinnumarkaðnum. Við myndum fá hér hressilegt verðbólguskot og nafnlaunahækkunin myndi brenna upp í verðbólgunni á tiltölulega skömmum tíma,“ segir Bjarni. Hann gagnrýnir jafnframt fyrirkomulagið og umgjörð vinnumarkaðarins og segir fámenna hópa hafa allt of mikil völd til að hleypa hlutunum í uppnám.

„Allt þetta hefur gefið mér tilefni til að hugsa um umgjörð vinnumarkaðarins og það meingallaða fyrirkomulag sem við erum með. Tiltölulega fámennir hópar geta tekið viðsemjendur sína í gíslingu og knúð þannig fram launahækkanir sem eru langt umfram það sem hagkerfið býður upp á,“ bætir hann við.

„Þetta leiðir svo af sér óstöðvandi keðjuverkun inn í hverja stéttina á eftir annarri. Þetta fyrirkomulag og þessar hefðir á íslenska vinnumarkaðnum eru þvert á það sem aðilar vinnumarkaðarins fjölluðu um í skýrslu sem kom út árið 2013 og hét „Í aðdraganda kjarasamninga“. Þar sýndu menn mjög eindreginn ásetning til þess að brjótast út úr þessu gamalkunna fyrirkomulagi og færa sig meira yfir í norræna módelið, þar sem menn koma sér saman um það fyrirfram hvaða svigrúm er til staðar og taka höndum saman um að fara ekki mikið fram úr því. Mér fannst það takast ágætlega árið 2014 en nú eru blikur á lofti.“