Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitunnar, segir að bankastofnanir hlaupi ekki eftir ummælum eins eða neins heldur skoði rekstur félagsins. Því miður hafi kennitölur í rekstri Orkuveitunnar ekki verið nægilega góðar til þess að fá lán. Þetta sagði Bjarni á blaðamannafundi í dag. Þar voru aðgerðaáætlanir kynntar. Fjármögnunarþörf félagsins er metin á um 50 milljarða króna á árunum 2011-2016 og ætlar félagið að mæta þeim án nýrra lána.

Bjarni sagði nauðsynlegt að OR hverfi aftur til upprunalegs hlutverks.„Í framtíðinni á Orkuveitan að sinna veitustarfsemi, fyrst og fremst. Það þarf að laga fyrirtækið að þessu. Vinnsla raforku til að selja til stóriðju er ekki hlutverk Orkuveitunnar.“ Bjarni sagði stefnu fyrirtækisins hafa verið óskýra og að hún hafi leitt fyrirtækið í ógöngur.