Þráinn Vigfússon, framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar VITA, og Þórunn Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Úrvals Útsýnar segja að þó svo að reksturinn hafi gengið í gegnum vægast sagt erfitt tímabil í COVID-19 heimsfaraldrinum virðist hann vera að taka við sér að einhverju leyti.

Þórunn segir að það hafi verið einkar strembið ferli að takast á við allar þær áskoranir sem COVID-19 heimsfaraldurinn skapaði. „Þetta er búið að vera mjög strembið ferli, vægast sagt. Síðustu vikur hafa verið mjög rólegar en þó er eitthvað um flugferðir bæði hjá Icelandair og fleiri félögum þannig að við höfum getað þjónustað þá sem þurfa nauðsynlega að komast til og frá landinu,“ segir Þórunn og bætir við að ferðaskrifstofan sé nú að hefja flug til Tenerife og Alicante. „Við finnum að reksturinn er að taka við sér að einhverju leyti en það stoppaði náttúrulega allt í COVID. Það er erfitt að skipuleggja framtíðina þegar það er svona mikil óvissa.“

Hafa endurgreitt töluverðar fjárhæðir

Þórunn segir að Úrval Útsýn hafi endurgreitt töluverðar fjárhæðir til sinna viðskiptavina en vill þó ekki gefa upp fjárhæðina. Hún bætir við að þrátt fyrir erfiðleikana hafi fyrirtækið komið nýrri bókunarvél á laggirnar. „Þrátt fyrir allt þetta ástand þá tókst okkur að koma upp þessari bókunarvél og það hefur gengið mjög vel.“ Umrædd bókunarvél nefnist „á eigin vegum“ og virkar þannig að viðskiptavinir sjái alltaf hagstæðustu verðin hverju sinni í rauntíma. „Þetta gefur neytendum það tækifæri að bóka alla ferðina hjá einu fyrirtæki í stað þess að þurfa að bóka flug og hótel á mismuandi síðum,“ segir Þórunn og bætir við að í bókunarvélinni sé hægt að bóka flug hjá yfir 600 mismunandi flugfélögum og gistingu hjá yfir 800.000 hótelum. Þórunn bendir á að fyrirtækið hafi gert kannanir sem sýni aukinn ferðavilja hjá þjóðinni. „En auðvitað er óvissan mikil eins og kom í ljós fyrir stuttu að Íslendingar þurfi að fara í viðbótarskimun og einangrun. Þetta hefur auðvitað allt áhrif en við höfum þrátt fyrir allt fundið fyrir miklum ferðavilja meðal Íslendinga.“

Finna fyrir auknum vinsældum

Þráinn og Þórunn segjast bæði vera bjartsýn á komandi sumar og haust og segjast hafa fundið fyrir því að fólk sé að bóka ferðir til sólarlanda yfir veturinn.

Þórunn segir að þau hjá Úrval Útsýn séu að finna fyrir því að fólk sé í meiri mæli farið að bóka utanlandsferðir hjá þeim. „Við höfum alveg fundið fyrir því að fólk er farið að bóka ferðir yfir veturinn hjá okkur. Það hefur að vísu gengið hægar en áður en fólk er að bóka samt sem áður. Síðan erum við líka að fá inn svolítið af fyrirspurnum um borgarferðir og fólk er farið að bóka jólaferðir þannig að það er eitthvert líf í geiranum.“ Hún bætir við að hún sé bjartsýn á framhaldið þó svo að það liggi að vísu mikil óvissa í loftinu. „Það er náttúrulega mikil óvissa um þessar mundir og velgengnin byggir að miklu leyti á því hvernig faraldurinn þróast, hvort það komi til dæmis önnur bylgja. Við finnum þó að það er mikill ferðahugur í fólki en á sama tíma þá heldur fólk að sér höndum því það veit í raun enginn hver þróunin verður.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .