Berserkir axarkast ehf. er nýtt félag sem hyggst opna miðstöð þar sem hópar geta komið saman og reynt sig í axarkasti.

„Við stefnum á að herja á fyrirtæki, gæsanir, steggjanir og vinahópa,“ segir Helga Kolbrún Magnúsdóttir, margfaldur Íslandsmeistari í bogfimi, sem stofnaði félagið ásamt mági sínum, Elvari Ólafssyni. „Þetta þarf náttúrlega að vera það fyrsta sem steggja- eða gæsahóparnir gera yfir daginn af því að þeir þurfa að koma áður en áfengið er borið fram,“ segir Helga og hlær.

Stefnt á opnun snemmsumars

„Við fengum lyklana afhenta fyrir nokkrum dögum,“ segir Helga. Starfsemin verður til húsa í í Hjallahrauni í Hafnarfirði. Stefnt er á að opna um leið og rekstrarleyfið fæst sem Helga vonast til að verði í vor eða byrjun sumars.  „Við erum að vinna á fullu í því að byggja brautirnar og axirnar eru í pöntun,“ segir Helga.

„Þetta verður ekki ósvipað og Bogfimisetrið,“ segir Helga. Hún segir axarkast ganga út á að kasta öxum í skífur, þar sem mismörg stig er gefin eftir því hvar axirnar lenda.

Leiðbeinandi verður með öllum hópum og mun fylgjast með, kenna undirstöðuatriði í axarkasti og halda utan um keppnir innan hópanna. „Það þarf að læra á tæknina við að kasta öxunum og svo náttúrlega að hitta,“ segir Helga kímin.

Þrátt fyrir að keppendur séu með beittar axir á lofti segir Helga ekki um hættulega íþrótt að ræða. „Bogfimi er talin ein öruggasta íþróttin,“ segir Helga. Fólk geti hegðað sér eins og hálfvitar í keilu eða hvaða atburði sem er. „En sem íþrótt er axarkast ekki hættulegt,“ segir Helga.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Hátæknifyrirtækið Valka sér fram á að tvöfalda veltu í ár
  • Orkuveitan sér tækifæri í vindmyllum
  • ÞG verk hafa stefnt byggingarétthafa Marriott hótelsins við Hörpu
  • Fjárfestingar aukast umtalsvert miðað við nýja fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar
  • Umfangsmiklar breytingar verða á starfsemi Odda á 75 ára afmæli félagsins
  • Ítarlegt viðtal við Sindra Sindrason, forstjóra CRI
  • Hugbúnaðarfyrirtækið Curron hefur þróað velferðarlausn fyrir heimaþjónustu
  • Viðtal við Hjördísi Maríu Ólafsdóttur, nýjan markaðsstjóra Heklu
  • Óðinn er á sínum stað og fjallar um seðlabankastjórann ómissandi
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs sem fjallar um markaðar skatttekjur