*

þriðjudagur, 21. september 2021
Innlent 9. september 2020 07:14

Bjóði út ónýttan lífmassa

Ríkið mun geta haldið útboð til ráðstöfunar á lífmassa til fiskeldis á eldissvæðum í sjó samkvæmt drögum að lagabreytingu.

Jóhann Óli Eiðsson
Haraldur Guðjónsson

Ríkið mun geta haldið útboð til ráðstöfunar á lífmassa til fiskeldis á eldissvæðum í sjó sem ekki eru fullnýtt. Í slíkum tilfellum mun hagstæðasta tilboðinu verða tekið. Þetta kemur fram í drögum að frumvarpi um breytingu á lögum um fiskeldi sem nýverið var kynnt í samráðsgátt stjórnvalda.

Í júní 2019 voru samþykktar viðamiklar breytingar á lögum um fiskeldi sem meðal annars fólu í sér breytingar á reglum um áhættumat, erfðablöndun, úthlutun eldissvæða og stjórnvaldssektir. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði laganna áttu umsóknir um rekstrarleyfi á burðarþolsmetnum hafsvæðum að halda gildi sínu ef frummatsskýrslu hafði verið skilað. Hefði það ekki verið gert bar að bjóða rekstrarleyfin út.

„Í framhaldi af samþykkt téðra laga var ráðist í endurskoðun reglugerða um fiskeldi. Meðal þess sem þá kom upp var hvernig fara skyldi með tilvik þegar til væri að dreifa því sem nefna má ónýttur lífmassi fjarðar eða hafsvæðis. Er það þegar fyrir liggur svæðisskipting og til er að dreifa útgefnum rekstrarleyfum í fiskeldi, sem þó ná ekki að „fullnýta“ fjörð eða hafsvæði,“ segir í greinargerð með frumvarpsdrögunum.

Frumvarpsdrögin nú bregðast við þessum aðstæðum með því að festa í lög heimild til útboðs á ónýttum lífmasa sem ekki hefur verið ráðstafað. Einnig verður sett í reglugerð tiltekið lágmarksverð sem verður að fást í slíku útboði.

„Ávinningur af samþykkt frumvarpsins er sá að það mun stuðla að betri nýtingu eldissvæða og getur þannig haft áhrif á einstaka fiskeldisfyrirtæki þar sem þau geta mögulega aukið framleiðslu sína með aðgangi að auknum lífmassa. Aukning á framleiðslu fyrirtækja mun jafnframt leiða til tekjuaukningar fyrir ríkissjóð. Bæði samkvæmt lögum um töku gjalds vegna fiskeldis í sjó og fiskeldissjóð, nr. 89/2019 og greiðslu samkvæmt útboði,“ segir í drögunum.

Umsagnarfrestur er til 18. september næstkomandi.

Stikkorð: Laxeldi