Bandaríska bruggfyrirtækið Ommegang hefur gert samning við sjónvarpsstöðina HBO um að gera röð bjóra sem byggðir verða á þemum og persónum úr sjónvarpsþáttaröðinni Game of Thrones. Þættirnir, sem byggðir eru á bókaflokknum A Song of Ice and Fire eftir George R. R. Martin hafa notið mikilla vinsælda, þar á meðal hér á landi, enda er hluti þáttanna tekinn upp hér.

Fyrsti bjórinn mun bera heitið Iron Throne Blonde Ale og tekur nafn sitt af oddhvössu hásætinu sem drengkonungurinn Joffrey Baratheon vermdi síðast þegar áhorfendur skildu við þættina. Fyrsti bjórinn kemur út í mars, eða á svipuðum tíma og þriðja sería af þáttunum fer í sýningu, og svo munu nokkrir bjórar til viðbótar bætast í hópinn.