Björgólfur Jóhannsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, segir mikilvægt að setja skýr og öflug markmið og freista þess að fá alla til að róa í sömu átt. Þetta sagði hann í ræðu sinni á ársfundi Samtaka atvinnulífsins sem fram fer í Hörpu í dag.

Á fundinum er kynnt það markmið SA að Ísland verði aftur á lista yfir tíu samkeppnishæfustu ríki í heimi eftir tíu ár. Ísland var í fjórða sæti fyrir bankahrun en er nú í 29. sæti. „Við viljum einbeita okkur að framtíðinni en læra af því sem liðið er,“ sagði Björgólfur meðal annars á fundinum.

Þá sagði Björgólfur að á liðnum árum hefði verið mikil óánægja á almennum vinnumarkaði með það hvernig staðið hefði verið að gerð kjarasamninga. Í byrjun árs hafi aðilar á vinnumarkaði orðið sammála um að kanna hvernig til hefði tekist á Norðurlöndunum að bæta kaupmátt. Í janúar 2013 gerðu samningsaðilar á almenna vinnumarkaðnum svo samkomulag um að fara þegar að vinna að kjarasamningum. Það hafi leitt til þess að samningar náðust í desember síðastliðnum ásamt viðbótum í nýliðnum febrúar.

„Í fyrsta sinn í langan tíma var samið um launahækkanir sem samræmast verðbólgumarkmiðum Seðlabanka Íslands,“ sagði Björgólfur. Hann sagði að þetta hefði skilað því að verðbólgumælingar núna væru betri en hefðu sést um langt skeið.

Björgólfur fagnaði því að nást hefði árangur í baráttu gegn verðbólgunni en minnti á að enn væri óvissa í efnahagsmálum. Hann benti á að gjaldeyrishöftin hefðu átt að vera tímabundin aðgerð til tveggja ára. Nú væru liðin fimm ár frá því að þau voru sett. „Gárungarnir segja að sennilegast sé ekkert meira viðvarandi en tímabundnar ráðstafanir hins opinbera,“ sagði Björgólfur.

Þá sagði Björgólfur líka mikilvægt að lækka skuldir ríkissjóðs. Til dæmis með því að selja eignarhluti í Landsbankanum en einnig í Landsvirkjun og RARIK.