„Við erum mjög sáttir við þann mikla áhuga sem fjárfestar sýndu þessu útboði.“

Þetta segir Björgólfur Jóhansson, forstjóri Icelandair Group, í samtali við Viðskiptablaðið í kvöld en um kvöldmatarleytið voru kynntar niðurstöður í almennu hlutafjárútboði félagsins eins og fjallað var um hér á vef Viðskiptablaðsins.

Björgólfur segist vonast til þess að góð þátttaka í útboði Icelandair Group gefi til kynna að almenningur hafi í auknum mæli áhuga á hlutabréfakaupum hér á landi þó vissulega sé of snemmt að spá fyrir um það.

„Það eru ekki margir fjárfestingamöguleikar í boði og því eðlilegt að menn séu áhugasamir þegar góð rekstrarfélög fara í útboð,“ segir Björgólfur.

Aðrir viðmælendur Viðskiptablaðsins hafa bent á að góða þátttöku í útboðinu megi meðal annars rekja til lágs verðs en hver hlutur var seldur á genginu 2,5 – sem er sama gengi og aðrir fjárfestar keyptu á fyrr á þessu ári, meðal annars Framtakssjóður Íslands og aðrir lífeyrissjóðir.

Aðspurður um þetta segir Björgólfur að verðið hafi verið ákveðið fyrr á þessu ári, í miðju eldgosi, eins og hann kemst að orði og vísar þar til gosins í Eyjafjallajökli. Þá segir Björgólfur að erfitt sé að fullyrða að gengið nú sé lágt, rekstur flugfélaga sé sveiflukenndur þó vel hafi gengið á þessu ári og félagið sé í stakk búið að takast á við sveiflur.

„Okkur fannst að sama skapi sanngjarnt að bjóða almennum fjárfestum og starfsmönnum að kaupa á sama gengi og lífeyrissjóðirnir höfðu keypt á fyrr á þessu ári,“ segir Björgólfur.