Breska helgarblaðið The Sunday Times birti í dag árlegan auðmannalista yfir ríkustu aðilana sem búsettir eru í Bretlandi. Björgólfur Thor Björgólfsson situr í 97. sæti listans í ár og hoppar upp um þrjú sæti frá síðustu útgáfu.

Auðæfi Björgólfs eru metin á 1.852 milljónir punda eða um 304 milljarða króna og jukust um 252 milljónir punda frá listanum í fyrra. Undir prófíl Björgólfs er minnst á að hann eigi fasteign í Notting Hill hverfinu sem er metin á meira en 40 milljónir punda eða yfir 6,5 milljarða króna.

Í fyrsta sinn frá því að Sunday Times hóf útgáfu á listanum árið 1989 kemst einn af æðstu stjórnmálamönnum landsins á blað. Rishi Sunak og eiginkona hans Akshata Murty verma 222. sæti listans en auðæfi hjónanna eru metin á 730 milljónir punda eða um 120 milljarða króna. Það skýrist einkum af 690 milljóna punda hlut Murty í indverska upplýsingatæknifyrirtækinu Infosys.