Björgólfur Guðmundsson, sem ákærður hefur verið í Frakklandi vegna lána sem Landsbankinn í Lúxemborg veitti fyrir hrun bankakerfisins, er í ákæru málsins sakaður um að hafa blekkt viðskiptavini til að taka lán sem hafi ekki verið þeim til hagsbóta. Þetta kemur fram í frétt Ríkisútvarpsins .

Þar kemur fram að rannsóknardómari í Frakklandi telji að Björgólfur hafi haft bein tengsl við starfsemi Landsbankans í Lúxemborg þrátt fyrir að hann hafi ekki gegnt formlegri stöðu hjá bankanum. Auk Björgólfs hefur Gunnar Thoroddsen, yfirmaður Landsbankans í Lúxemborg, verið ákærður í málinu.

Fram kemur í frétt Ríkisútvarpsins að lánin hafi aðallega verið veitt eldra fólki sem átti verðmætar húseignir en minna lausafé. Bankinn hafi lánað fólkinu út á verðmæti húseignanna en eigendurnir hafi gjarnan fengið fjórðung greiddan út en afgangurinn hafi verið settur í eignastýringu.

Alls eru níu einstaklingar ákærðir í málinu. Þar á meðal eru Daninn Torben Bjerregaard Jensen, Svíinn Olle Lindfors og Belginn Failly Vincent, en þeir voru allir yfirmenn í bankanum í Lúxemborg.