Björgólfur Thor Björgólfsson, fjárfestir, hefur gefið út sjálfsævisögu sem ber nafnið 'Billions to Bust - and back'. Í bókinni lýsir hann sjálfur sér sem samningafíkli sem hafi haft bæði jákvæð og neikvæð áhrif á hann.

Björgólfur greinir frá því í bókinni að hann hafi verið búinn að setja eignir upp á 200 milljónir evra í fjárvörslusjóði sem tryggja áttu framtíð barna hans. Fjárhæðin jafngildir um 30 milljörðum íslenskra króna á gengi dagsins í dag.

Björgólfur segir frá því að þegar Lehman banki hafi fallið í september 2008 hafi persónulegt gjaldþrot vofið yfir honum. Fyrsta verkefni hans hafi verið að koma eigin málum í lag áður en hann gæti hjálpað öðrum. Hann lýsir því í bókinni að hann hefði getað lýst sig gjaldþrota og notfært sér fjármunina í fjárvörslusjóðunum, en hann hafi frekar ákveðið að semja við lánardrottna og endurskipuleggja fjármálaveldi sitt.

Björgólfur opnaði sjóðina að hluta til fyrir bönkunum þannig að þeir fengju hluta arðgreiðslna samkvæmt samningi sem hefði annað hvort getað skilað honum engu eða allt að 600 milljónum evra eftir því hverju eignirnar skiluðu.