*

miðvikudagur, 28. júlí 2021
Innlent 2. maí 2013 14:50

Björgólfur Thor búinn að gera upp við Deutsche Bank

Björgólfur Thor segir skuldauppgjör við kröfuhafa á undan áætlun og uppgjöri við Deutsche bank lokið.

Guðni Rúnar Gíslason
Haraldur Jónasson

„Það er búið að gera alveg upp við Deutsche bank. Þeir eru alveg dottnir út og fá allt sitt tilbaka. Þó að þeir hafi tekið afskriftir þá var það bara af mjög háaum vaxtagjöldum sem þeir voru búnir að reikna sér til tekna í mörg ár. Þeir hafa fengið tilbaka höfuðstólinn sem þeir settu inn og vel það,“ segir Björgólfur Thor Björgólfsson í samtali við Viðskiptablaðið.

Eins og Viðskiptablaðið greindi fyrst frá í dag þá fær NDS, dótturfélag Novator, sem er að stærstum hluta í eigu Björgólfs, bréf í Actavis að andvirði 60 milljarða króna, um fimm milljónir hlutabréfa, eftir að gengið var frá lokauppgjöri vegna sölu Actavis. Hluti af þeim 5,5 milljónum bréfa sem fengust við uppgjörið, sem tengt var afkomu Actavis, rennur til Landsbankans og ALMC og meðfjárfesta Novators.

Björgólfur segir skuldauppgjör hans við lánadrottna á undan áætlun. „Við skuldauppgjörið árið 2010 þá höfðum við fimm ára tímaramma til að gera verðmæti úr eignunum þannig að allir fái sem mest tilbaka. Núna er 2013 þannig að það eru komin þrjú ár og við erum komin langleiðina með þetta," segir Björgólfur Thor.