Björgólfur Thor Björgólfsson telur að yfirlýsingar annarra um sig í Rannsóknarskýrslu Alþingis, sem kom út fyrir ári, séu margar rangar og sumar ótrúlegar heimskar. Hann hafi ekki verið kallaður fyrir nefndina og þessar yfirlýsingar birtar án andmæla.

"Fyrir ári taldi ég það allra hag að láta þetta kyrrt liggja. Ég taldi mikilvægara að þjóðinni tækist að gera skýrsluna, þó gölluð væri, að upphafsreit uppbyggingar en að ég sendi frá mér leiðréttingar við rangfærslur viðmælenda nefndarinnar og skýrsluhöfunda sjálfra," segir Björgólfur Thor í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag.

"Því miður hefur mér ekki orðið að ósk minni. Skýrslan hefur enn engin áhrif haft til góðs á íslenskt samfélag."

Ítrekar afsökunarbeiðini

Björgólfur Thor ætlar því að koma andmælum sínum á framfæri. Hann ítrekar afsökunarbeiðni sína.

Ég sé því enga ástæðu til að sitja lengur á leiðréttingum mínum á augljósum villum, röngum ályktunum og hreinum uppspuna. Ég mun birta athugasemdir mínar á vef mínum, btb.is, til fróðleiks fyrir áhugamenn um það sem sannara reynist. Ég hef jafnframt óskað eftir því við forseta Alþingis að athugasemdir mínar verði birtar á vef rannsóknarnefndar Alþingis.

Um leið ítreka ég afsökunarbeiðni mína. Íslenskt viðskiptalíf og samfélag þróaðist hratt árin fyrir hrun og sú þróun var til óheilla. Ég var í aðstöðu til að sjá hættumerki og ég sá sum þeirra, en mér auðnaðist ekki að bregðast við; í sumu gerði ég of lítið, í öðru of seint og í sumu alls ekki neitt. Ef ég og aðrir áhrifamenn í viðskiptum og stjórnmálum hefðum vaknað fyrr og okkur hefði auðnast að vinna saman hefði okkur án vafa tekist að minnka skaðann. En það tókst okkur ekki. Og á því ber ég mína ábyrgð.