Georg Papandreú, forsætisráðherra Grikklands, hefur dregið til baka áform sín um að leyfa Grikkjum að kjósa um það hvort þeir vilji fá yfir sig björgunaráætlunina sem leiðtogar ESB-ríkjanna náðu saman um í síðustu viku. AP-fréttastofan segir að fjármálaráðherra Grikklands hafi staðfest að hætt hafi verið við þjóðaratkvæðagreiðsluna.

Forsætisráðherra Grikklands málaði sjálfan sig út í horn og setti alþjóðlega fjármálamarkaði á hliðina þegar hann lýsti því yfir í vikubyrjun að björgunaráætlunin sem leiðtogar ESB-ríkjanna samþykktu á maraþonfundum í síðustu viku skyldi fara í hendur Grikkja. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, og Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, sem áttu í mesta basli með að ná saman um björgunarpakka til að forða Grikkjum frá gjaldþroti létu Papandreú finna fyrir því. Þeim líkaði framferði Grikkja síður og sögðu að með þjóðaratkvæðagreiðslu væru Grikkir í raun að kjósa um það hvort þeir vilji taka þátt í evrusamstarfinu eður ei.

Fyrr í dag kom fram að stjórn Papandreús ryðaði til falls, hann væri líklegur til að segja af sér og væri búið að teikna upp samsteypustjórn sem tæki við.