*

fimmtudagur, 27. janúar 2022
Innlent 24. júlí 2020 13:02

Björgunarpakki óhjákvæmilegur

Fyrrum forstjóri Icelandair segir að björgunarpakki sé óhjákvæmilegur, óháð því hvort full fjármögnun fáist í hlutafjárútboðinu eða ekki.

Alexander Giess
Jón Karl Ólafsson er fyrrum forstjóri Icelandair og núverandi stjórnarformaður Travelco Nordic.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Jón Karl Ólafsson, fyrrum forstjóri Icelandair, segir að niðurstaða bráðabirgðauppgjörs Icelandair komi ekki á óvart enda ljóst að félagið er að fara í gegnum erfiða tíma. Hann segir að aðkoma ríkisins sé óhjákvæmileg og ef hvorki ríkið aðstoði félagið né hlutafjárútboðið gangi eftir sé gjaldþrot Icelandair sennilegasta niðurstaðan.

Enn fremur lítur hann ekki á hlutafjáraukninguna sem fjárfestingu, fremur sé það ákvörðun um hvort eigi að bjarga félaginu eða ekki. „Því miður verður varla komist hjá því að einhvern björgunarpakka þarf að setja fram með aðkomu ríkisins, hvort sem full fjármögnun náist í útboðinu eða ekki.

Ég tel ekki að þeir 30 milljarðar sem Icelandair stefnir á að sækja dugi til en að auki hef ég trú á því að fjármögnunin verði þyngri en búist var við. Ég hef talið það betri kost að bjarga félaginu enda mikilvægt að hafa sterkt félag tilbúið þegar flugferðir fara á fullan gang, sem verður vonandi bráðlega,“ segir Jón Karl og bætir við að ákveða þurfi sem fyrst með hvaða formi slíkur björgunarpakki verði.

„Að mínu mati er spurningin sú hvort eigi að bjarga félaginu eða ekki, fremur en hvort um sé að ræða fjárfestingu. Hluti af nálguninni hjá lífeyrissjóðunum snýst um hvort þeir vilji reyna að bjarga því sem áður hefur verið fjárfest í staðinn fyrir að horfa á útboðið sem góðan fjárfestingakost til framtíðar,“ segir Jón.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.