Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra, varð uppvís að fjárdrætti sem nemur nokkur hundruðum þúsunda króna í störfum sínum sem sveitastjóri fyrir Ásahrepp. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu .

Egill Sigurðsson, oddviti Ásahrepps, segir málið hafa komið fljótt upp á yfirborðið þar sem það sé ekki sami maður sem bóki, samþykki og greiði hjá hreppnum. Það kerfi hafi virkað sem skyldi í málinu.

Hann segir Björgvin hafa haft til umráða greiðslukort frá sveitarfélaginu sem hann nýtti til persónulegra nota. „Við getum sagt með nokkurri vissu að þetta hafi hafist í októbermánuði í fyrra. Fyrst með litlum greiðslum hér og þar, en vatt upp á sig líkt og snjóbolti sem rúllar niður brekku,“ segir Egill í samtali við Fréttablaðið.

Egill segir Björgvin eiga inni hálfsmánaðarlaun auk uppsafnaðs orlofs. Því verði skuldajafnað og staðan svo tekin í kjölfarið.