Björgvin Gestsson er nýr forstöðumaður Fyrirtækjaráðgjafar Íslenskra verðbréfa, en hann hefur starfað innan fyrirtækjaráðgjafar ÍV í tæp tvö ár. Nú mun hann veita sviðinu forstöðu og leiða ráðgjafaverkefni á vegum félagsins.

Björgvin hefur mikla reynslu úr alþjóðlegum viðskiptum í  sjávarútvegi og hefur starfað víða um heim á þeim vettvangi, bæði í eigin rekstri og fyrir aðra. Á 20 ára tímabili hefur hann byggt upp víðtækt tengslanet í sjávarútvegi og annarri hafsækinni starfsemi og komið að stjórnunarstörfum sem tengjast veiðum, fiskvinnslu, fiskeldi og markaðssetningu sjávarfangs.

Í dag er Björgvin stjórnarformaður Sjótækni ehf. sem er sagt í fréttatilkynningu vera eitt framsæknasta fyrirtæki á íslandi á sviði þjónustu við fiskeldisfyrirtæki. Björgvin er sjávarútvegsfræðingur frá Háskólanum á Akureyri og hefur lokið Global Executive MBA námi við IE Business School í Madríd.

„Það er mikið um að vera í fyrirtækjaráðgjöf á Íslandi. Verkefnin eru mörg, mismunandi og mis krefjandi og viðskiptavinirnir eru margs konar. Við í ÍV Fyrirtækjaráðgjöf búum yfir mikilli reynslu og höfum tengsl inn í sjávarútveg og haftengda starfsemi,“ segir Björgvin.

Verkefnamappan okkar er að einhverju leiti lituð af því en þó er mjög mikið af annarskonar verkefnum í gangi og mikið af hugmyndum. Ég hlakka mjög til að leiða hópinn í gegnum tíma sem verða að teljast fordæmalausir og krefjandi en á sama tíma einstaklega spennandi.“

Björgvin er fjölskyldumaður, giftur fimm barna faðir og mikill liðsmaður. Hann leggur mikið upp úr því að móta rétt teymið. Íslensk verðbréf hafa farið í gegnum talsverða endurskipulagningu í rekstri sínum á undanförnum árum og Björgvin telur að nú sé félagið komið á þann stað sem það þarf að vera til að ná frekari árangri til framtíðar.

„Störfin sem við sinnum hjá ÍV eru mjög lífleg og spennandi. Teymið er mjög samheldið og sterkt og alltaf að bæta við sig. Andinn er góður eftir talsverðar breytingar undanfarin ár. Við sjáum fjölmörg tækifæri til vaxtar og framsóknar og í undirbúningi er að styrkja innviði og þjónustuframboð félagsins enn frekar. Við finnum fyrir velvilja viðskiptavina og ánægju með góðan árangur af starfsemi,“ segir Björgvin.

Jóhann Ólafsson forstjóri Íslenskra Verðbréfa segir ráðningu Björgvins í stöðu forstöðumanns vera eðlilegt framhald af öflugu starfi hans fyrir félagið.

„ÍV Fyrirtækjaráðgjöf verður í traustum höndum Björgvins. Ég vænti mikils af honum og hans fólki á komandi misserum og árum líkt og af öðru starfsfólki ÍV. Það er mikið í deiglunni og mikill fjöldi spennandi mála í farvatninu,“ Segir Jóhann.