Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi ráðherra og sveitarstjóri Ásahrepps, verður ekki kærður vegna meints fjárdrátts, sem var ástæða uppsagnar hans í síðustu viku. í frétt á vef hreppsins segir að Björgvin og Ásahreppur hafi gert með sér samkomulag um fjárhagslegt uppgjör vegna málsins, sem öðrum þræði fól í sér nánari útfærslu á fyrri samningi um starfslok Björgvins.

Björgvin hafi viðurkennt að hafa brotið gegn starfsskyldum sínum með því að hafa án fenginnar heimildar ráðstafað fjármunum úr sveitarsjóði Ásahrepps. Laun Björgvins vegna vinnu í janúar 2015 og uppsafnað orlof hans gengu til greiðslu krafna Ásahrepps og þá féll Björgvin frá rétti til launa í uppsagnarfresti.

Í fréttinni kemur fram að Björgvin hafi þegar endurgreitt hreppnum að fullu allar kröfur. Samkomulagið felur í sér endanlegar málalyktir vegna starfslokanna af hálfu beggja aðila og mun hvorugur hafa uppi frekari kröfur á hendur hinum né frekari aðgerðir vegna málsins.