Jóhanna og Steingrímur J. Sigfússon sátu í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar 1990, þegar samþykkt voru í fyrsta sinn ótímabundinn lög um stjórn fiskveiða, kvótakerfið. Aflaheimildir voru skilgreindar til langs tíma, þær voru gerðar einstaklingsbundnar og framseljanlegar.

Þetta segir Björn Bjarnason, fyrrv. dómsmálaráðherra, í grein á vef sínum í dag þar sem hann fer hörðum orðum um ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Í lok greinarinnar segir Björn að ríkisstjórnin ætti að segja af sér.

„Það er aðeins til marks um óheiðarleika og ómerkilega pólitík, þegar Jóhanna lætur eins og Sjálfstæðisflokkurinn beri pólitíska ábyrgð á kvótakerfinu,“ segir Björn.

„Jóhanna og Steingrímur J. sátu í ríkisstjórn kvótalaganna frá 1990. Þau töldu þá, að um skynsamlegt fyrirkomulag á nýtingu auðlindarinnar væri að ræða. Nú lætur Jóhanna eins og allt sé þetta verk annarra og réttmætt að eyðileggja það. Ríkisstjórn Jóhönnu kemur aftan að útgerðarmönnum og undrast, að þeir snúist til varnar. Síðan er LÍÚ og þjóðinni allri hótað með þjóðaratkvæðagreiðslu, beygi LÍÚ sig ekki undir þá ákvörðun Jóhönnu að eyðileggja kvótakerfið.“

Fyrr í pistlinum segir Björn að það að lögð sé áhersla á að útmála einhvern einn stjórnmálaflokk sem sökudólg vegna hrunsins sé séríslenskt fyrirbæri. Hann segir að í öðrum ríkjum beinist athyglin að viðbrögðum við vandanum eftir hrun.

„Leit að þeim stjórnmálamanni eða stjórnmálaflokki, sem sagður er bera ábyrgð á hruninu, er verkefni sagnfræðinga eða sérstakra rannsakenda. Ekki er unnt að draga upp svart/hvíta mynd af ábyrgð á hruninu,“ segir Björn.

„Á árunum fyrir hrun var ráðist á sjálfstæðismenn fyrir að vilja ekki veita fjármálafurstunum nægilega mikið frelsi. Um það snerist Baugsmálið fræga öðrum þræði. Hallgrímur Helgason, Ólafur Ragnar Grímsson og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir gagnrýndu til dæmis forráðamenn Sjálfstæðisflokksins fyrir að ætla sér að grípa fram fyrir hendur eigenda Baugs. Á árunum eftir hrun er ráðist á Sjálfstæðisflokkinn fyrir að gefa þessum mönnum lausan tauminn og það of lausan.“

Björn segir að forysta Sjálfstæðisflokksins sé að sjálfsögðu ekki hafin yfir gagnrýni. Hún hafi lamast að nokkru eftir hrun eins og aðrir.

„Eftir að Sjálfstæðisflokkurinn myndaði ríkisstjórn með Samfylkingunni vorið 2007, var aðgæsla af hálfu ríkisvaldsins með fjármálastarfsemi ekki næg og líklega ekki eftir viðvörunina árið 2006,“ segir Björn.

Sjá pistil Björns í heild sinni.