Stjórn Sparisjóðs Hafnarfjarðar hefur í dag ráðið Björn Inga Sveinsson í stöðu sparisjóðsstjóra við Sparisjóð Hafnarfjarðar. Gert er ráð fyrir að Björn Ingi taki til starfa í ársbyrjun 2005. Björni Ingi Sveinsson er fæddur 1951 í Reykjavík. Hann útskrifaðist sem stúdent frá Verslunarskóla Íslands árið 1973 og sem byggingarverkfræðingur frá Háskóla Íslands árið 1977. Hann útskrifaðist með meistarapróf í byggingaverkfræði frá Kaliforníuháskóla í Berkeley árið 1979.

Björn Ingi starfaði fram til 1989 í Kaliforníu sem verkfræðilegur ráðgjafi, en flutti þá aftur heim til Íslands og settist að í Hafnarfirði. Björni Ingi starfaði sem verkfræðingur og tæknilegur framkvæmdastjóri hjá verktakafyrirtækinu Klæðingu fram til ársloka 1996, en réðst þá sem forstjóri vélaframleiðslufyrirtækisins Silfurtúns í Garðabæ. Árið 1999 gerðist Björn Ingi forstjóri verkfræðistofunnar Hönnunar í Reykjavík. Björn Ingi hefur starfað sem borgarverkfræðingur í Reykjavík frá því í ágúst 2003.

Björn Ingi er búsettur í Hafnarfirði, kvæntur Katrínu Gísladóttur og eiga þau saman fimm börn. Björn Ingi á að auki einn son frá fyrra hjónabandi.