Bláa Lónið mun hefja sölu á Blue Lagoon húðvörum sínum í Bandaríkjunum í næstu viku. Vörurnar verða seldar í sjö Saks Fifth Avenue verslunum sem eru staðsettar víðsvegar um Bandaríkin.

Þetta verða fyrstu skref Bláa Lónsins inn á Bandaríkjamarkað en undirbúningur verkefnisins hefur staðið yfir í rúmlega ár.

Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa Lónsins, segir fyrsta skrefið í að skapa þekkingu á vörumerkinu Blue Lagoon í Bandaríkjunum sé að fara með vörurnar í virta verslunarkeðju eins og Saks en hún er að sögn Gríms þekkt fyrir sölu á vönduðum vörum.

„Við erum búin að gera samstarfssamning við þá um að taka þetta skref inn á smásölumarkaðinn. Við byrjum á völdum verslunum Saks í Bandaríkjunum, í raun þeirra bestu verslunum, en þær eru m.a. staðsettar í New York, Beverly Hills og Miami.”

Grímur segir samninginn ekki hefta Bláa Lónið á neinn hátt ef fyrirtækið vill setja upp eigin verslanir í Bandaríkjunum síðar eða fara aðrar dreifileiðir á seinni stigum. „Framhaldið mun þó ráðast af þeim viðbrögðum sem vörur okkar fá í þessum verslunum”

Bláa Lónið hefur selt húðvörur sínar á Norðurlöndum í tæplega ár og hefur salan gengið ágætlega að sögn Gríms. „Við lítum ekki á þennan markað sem kjarnamarkað heldur sem reynslumarkað enda lítill markaður”.

Hann segir fyrirtækið hafa selt þangað með það í huga að þróa eigin innviði og skoða hvernig best væri að nálgast neytendur. „Við opnuðum flaggskipsbúð í Magasin DuNord í Kaupmannahöfn sem hefur gengið vel. Svo höfum við skoðað aðrar dreifileiðir sem eru ekki jafnspennandi.”

Hann segir sölu í Danmörku og Svíþjóð hafa gengið ágætlega en hins vegar hafi salan í Noregi valdið vonbrigðum.