Eignastýringarfyrirtækið BlackRock var meðal fjárfesta í 10 milljarða króna fjármögnunarlotu breska kventæknifyrirtækisins Elvie, sem framleiðir hljóðlátar brjóstapumpur.

Elvie gaf út fyrstu brjóstapumpuna sína árið 2018 og fór þar með inn á markað sem hefur séð litla vöruþróun í áratugi, að því er kemur fram í frétt Skynews . Elvie brjóstapumpan tengist snjallsímaforriti sem gerir konum kleift að stjórna henni á háttvísari hátt en með hefðbundnari tæki.

Brjóstapumpan vakti mikla athygli þegar fyrirsætan Valeria Garcia gekk á tískupallinum klædd pumpunni á London tískuvikunni árið 2018.

Fyrirtækið, sem var stofnað árið 2008 af Taniu Boler, framleiðir einnig líkamsræktartækið „Elvie Trainer“ sem á að styrkja mjaðmagrind kvenna. Elvie landaði stórum samningi við Bresku heilbrigðisþjónustuna NHS árið 2018 sem samþykkti að dreifa vörunni til spítala út um allt Bretland.