Bandaríski fjárfestingarsjóðurinn Blackstone er sagður líklegur til að styðja fjárhagslega við bakið á Malcolm Walker, stofnanda og forstjóra bresku matvörukeðjunnar Iceland Foods. Forstjórinn, sem stýrir 23 prósentum af hlutafé verslunarinnar, hefur margoft verið sagður vilja tryggja sér hlut skilanefnda Landsbankans og Glitnis í versluninni.

Walker bauð einn milljarð punda í tæpan sjötíu prósenta hlut skilanefndar Landsbankans í versluninni fyrir ári. Tilboðinu var hafnað. Breska dagblaðið Telegraph segir Walker enn bera víurnar í verslunina og hafi hann rætt við allt að sex fjárfesta og sjóði um fjárhagslegum stuðningi.

Dagblaðið segir að þótt Walker myndi kjósa að fjármagna tilboðið sjálfur til langs tíma þá sé fjármagnskostnaður orðinn slíkur við núverandi aðstæður á lánsfjármarkaði að hann verði að leita sér stuðnings.

Ekki er útilokað að tilboð verði lögð fram í Iceland Foods á næstu dögum.

Um nokkurt skeið hefur legið fyrir að verslanarisarnir Asda og Morrisons hyggist leggja fram tilboð í Iceland Foods. Samkvæmt samningum má Walker jafna tilboð keppinauta sinna. Takist honum það getur hann tryggt sér hlutinn. Verði engin tilboð hins vegar lögð fram gegn Walker er ekki útilokað að skilanefndir gömlu bankanna hætti við söluna í bili, að sögn Telegraph.