Eftir að Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hafði lesið yfirlýsingu á blaðamannafundi á Bessastöðum 20. febrúar 2011, þar sem fram kom að hann synjaði Icesave lögunum staðfestingar, bauð hann fréttafólki að spyrja sig spurninga. Þá gafst forsetanum tækifæri til að rökstyðja ákvörðun sína enn frekar. Í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins er að finna orðrétt handrit af fundinum.

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands : Ég er eins og ég sagði áðan reiðubúinn að svara að minnsta kosti einhverjum þeirra spurninga sem þið hafið fram að færa hér þó að við höfum kannski ekki allan daginn til þess. Jóhann.

Fréttamaður : ... ... þetta er mikilvægt mál, þetta lítur betur út en það gerði, en er ekki með sömu rökum hægt að segja sem svo að forsetinn eigi bara yfir höfuð að vísa öllum málum sem ekki er víðtæk sátt um í þjóðaratkvæðagreiðslu?

Ólafur Ragnar Grímsson : Nei það er alrangt enda ef þú lest yfirlýsinguna og skoðar hana grannt þá er grundvallarforsenda þessarar ákvörðunar að þjóðin fór með löggjafarvaldið ásamt Alþingi í þessu máli og stjórnarskrá lýðveldisins er á þann veg að Alþingi fer ekki alfarið eitt með löggjafarvaldið heldur getur þjóðin komið að því og þó að þetta séu að einhverju leyti nýir samningar þá er þetta að mörgu leyti sama málið og eins og ég segi skýrt í yfirlýsingunni ef að annar löggjafinn sem hefur fjallað um það á nú einn að ráða niðurlögum þess í ljósi aðdragandans í þessu sérstaka máli að þá þarf að vera nokkuð víðtæk sátt í samfélaginu um það og ég tel að eins og ég gerði grein fyrir að svo sé ekki og leiði fram rök að því.

Auðvitað er málið á margan hátt erfitt og eins og ég sagði hér fyrir nokkrum dögum síðan þá er þetta, hefur þetta ekki verið einföld ákvörðun og margir þættir í henni. Ég vík aðeins að þessum nýju samningum í yfirlýsingunni og þar kemur fram að þeir eru tvímælalaust hagstæðari og á margan hátt betri heldur en þeir sem voru áður, en hins vegar þegar búið er að hugsa sig í gegnum málið þá stendur eftir þetta grundvallaratriði að þjóðin fór með löggjafarvaldið í málinu, málið væri ekki á dagskrá nú ef þjóðin hefði ekki beitt löggjafarvaldi sínu á þennan sérstaka hátt og til þess að hún geti verið sátt við niðurstöðuna þarf auðvitað að vera víðtæk samstaða um það að Alþingi ljúki málinu eitt ef að það á að vera þannig.

Fréttamaður : En það eru tveir löggjafar í landinu?

Ólafur Ragnar Grímsson : Ja eins og stjórnarskráin er og ég þarf ekki að lýsa því fyrir þér enn á ný að þá er stjórnarskrá Íslands á þann veg að Alþingi fer að öllu jöfnu með löggjafarvaldið nema í þeim tilvikum þegar forseti vísar málum til þjóðarinnar að þá fer þjóðin með löggjafarvaldið ásamt Alþingi og hennar ákvörðun er endanleg. Stjórnarskrá lýðveldisins er alveg skýr í þessum efnum.

Handrit af fundinum í heild sinni má lesaa í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir Tölublöð.