Breiðablik er í sérflokki meðal íslenskra knattspyrnufélaga þegar kemur að félagaskiptatekjum. Félagaskiptatekjur knattspyrnudeildar Breiðabliks námu 117 milljónum króna á síðasta ári og 70 milljónir árið áður. Þegar tekin eru saman árin 2019-2022 nema tekjurnar samtals 367 milljónum króna.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu KSÍ og Deloitte um fjármál íslenskrar knattspyrnu sem kynnt var í höfuðstöðvum KSÍ í gær.

Í karlaliði Breiðabliks var talsvert um stór félagaskipti á árinu 2022. Árni Vilhjálmsson samdi við franska B-deildarliðið Rodez í byrjun árs 2022. Ísak Snær Þorvaldsson, markahæsti leikmaður liðsins á síðasta tímabili var seldur til norska úrvalsdeildarliðsins Rosenborg fyrir um 40 milljónir króna, samkvæmt Transfermarkt. Galdur Guðmundsson var einnig seldur á árinu til Kaupmannahafnar á enn hærri upphæð.

Kvennalið Breiðabliks seldi einnig fjölmarga leikmenn erlendis, þar á meðal Öglu Maríu Albertsdóttur og Selmu Sól Magnúsdóttur.

Nánar er fjallað um skýrslu KSÍ og Deloitte í Viðskiptablaðinu sem kom út fimmtudaginn 27. apríl. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.