Greiningardeild Arion banka spáir því að minni eignir, einkum fjölbýli, hækki meira í verði en aðrar, s.s. raðhús, parhús og einbýlishús. Deildin segir í spá sinni um verðþróun á fasteignamarkaði sem kynnt var í morgun að nú þegar séu vísbendingar um að sérbýlisálagið hafi lækkað á markaði og muni sú þróun halda áfram þar sem framboð á minni íbúðum í fjölbýli sé takmarkað vegna neikvæðrar eiginfjárstöðu ungra fasteignaeigenda. Af þeim sökum muni nýir kaupendur á markaði þrýsta verði þeirra upp þar til eigendur slíkra eigna losna úr eiginfjárgildrunni.

Greiningardeildin telur jafnframt að verð muni þróast eftir svæðum. Samkvæmt því muni verð fasteigna miðsvæðis í hverfum hækka eftir verðlækkun í hruninu. Greiningardeildin segir að því sé svigrúm fyrir verðið til að koma til baka af meiri krafti en það hafi þegar gert.

„Þegar fasteignaverðshækkanir hafa komið fram hafa þær að öðru jöfnu verið kraftmeiri miðsvæðis en auknum kaupmætti vill fylgja aukinn vilji til að greiða hátt verð fyrir staðsetningu. Þá hefur stækkun byggðar og fjölgun íbúa á höfuðborgarsvæðinu tilhneigingu til að setja þrýsting á íbúðir í bestu hverfunum, þar sem þeim fjölgar lítið sem ekkert yfir tíma,“ segir greiningardeildin.