Skrifstofuumhverfið getur virkað þrúgandi og hafa menn reynt margt til að létta á þeim þrýstingi sem þar getur skapast, en samkvæmt nýrri rannsókn getur það verið hollt fyrir skrifstofustarfsmenn að blóta, bæði starfsmenn og yfirmenn.

Samkvæmt könnuninni eru kostir ófagurs tungutaks að efla liðsanda, veita útrás fyrir pirring og bæta samstarf. Í könnuninni er þó ekki mælt með blótsyrðum sem notuð eru á niðrandi hátt. Þá mun hafa komið fram að konur blóta oftar en áður var talið, sérstaklega sín á milli.

Könnunin var gerð við University of East Anglia. Í könnuninni kemur fram að bann við notkun blótsyrða á vinnustað dragi úr starfsanda og letji starfsmenn í flestum fyrirtækjum. Ekki fylgdi þó fréttinni hvort stöðugt blót starfsmannanna gæti haft neikvæð áhrif á öðrum sviðum, varðandi málefni á borð við ásýnd fyrirtækisins og trúverðugleika.