Bílaframleiðendur í Bandaríkjunum búast við minnkandi sölu bifreiða innanlands í ágúst mánuði en gera ráð fyrir jöfnum útflutningi bifreiða.

Þetta kemur fram í Wall Street Journal í dag.

Einn stærsti bílaframleiðandi Bandaríkjanna, General Motors heldur nú upp á 100 ára starfsafmæli sitt og ætlar í tilefni þess að bjóða bíla sína á „starfsmannaverði“ í þeirri von að auka söluna en talsmaður GM viðurkenndi í fjölmiðlum fyrir helgi að félagi hefði verulega áhyggjur af minnkandi sölu að sögn Wall Street Journal.

Þá er greint frá því að sala á bifreiðum hefur ekki verið minni í 16 ár en sem dæmi má nefna að samdráttur í sölu General Motors er nú um 27% milli ára.