Stjórnvöld í Bandaríkjunum lokuðu um helgina fimm bankastofnunum í miðríkjum Bandaríkjanna og í Arizona fylki.

Frá þessu er greint á vef Reuters fréttastofunnar en þá hefur alls 89 bönkum verið lokið vestanhafs það sem af er ári en bönkum þar er lokað uppfylli þeir ekki kröfur um eigin fé og ef þeir geta ekki sýnt stjórnvöldum fram á úrlausn sinna mála.

Bankarnir sem um ræðir eru allir í minna lagi. Þetta eru Vantus Bank í Sioux borg, Iowa fylki, InBank í Oak Forest, Illinois fylki, Platinum Community Bank í  Rolling Meadows, Illinois fylki, First Bank staðsettur í Kansas City, Missouri fylki og the First State Bank í Flagstaff, Arizona fylki.

Af þessum stofnunum var Vantus Bank stærsti bankinn en eignir hans námu um 460 milljónum Bandaríkjadala og innistæður tæpum 370 milljónum dala.

Í frétt Reuters kemur fram að lokun bankana mun kosta tryggingasjóð innistæðueigenda í Bandaríkjunum (FDIC) rétt rúmar 400 milljónir dala en sjóðurinn tryggir aðeins innistæður upp að 250 þúsund dölum.

Sem fyrr segir hefur 89 bönkum verið lokað á þessu ári en í fyrra var 25 bönkum lokað af yfirvöldum. Ónafngreindur viðmælandi Reuters segir að svo virðist sem stærri bankastofnanir í Bandaríkjunum verði þær einu sem lifi kreppuna af en aðeins einum banka, með eignir yfir 1 milljarð dala, hefur verið lokað á þessu ári. Allir hinir hafa verið minni.