Hagfræðingar spá nú betri seinni helmingi ársins en áður þar sem greiðslur ríkisins fyrir gamla bíla, kallað cash-for-clunkers, sem gæti útlagst dollarar-fyrir-druslur, ýti undir eyðslu og framleiðendur auki því framleiðslu sína. Þetta kemur fram í WSj.

Endurskoðun á spám hófst eftir að tölur frá síðustu viku sýndu að hagkerfið dróst minna saman á fyrri helmingi ársins en reiknað hafði verið með, eða um 1%.

Í gær komu fram tölur frá viðskiptaráðuneytinu um að einkaneysla hefði aukist um 0,4% í júní, en að teknu tilliti til verðbólgu féll hún um 0,1%. Tekjur einstaklinga féllu líka um 1,3% í júní, sem er mesta lækkun í einum mánuði í fjögur ár.

UBS AG spáir nú 2,5% hagvexti á þriðja ársfjórðungi og er það hækkun frá 2%. Bankinn spáir 3% hækkun á fjórða fjórðungi, sem er hækkun frá 2,5%. Wells Fargo hækkaði spá þriðja fjórðungs úr 2,2% í 3,0% og spá fjórða fjórðungs úr 1,6% í 2,0%. Þá hækkaði T. Rowe Price Group spá sína fyrir þriðja fjórðung úr 1,3% í 2,75%, segir í WSJ.