Jeff Bezos, forstjóri Amazon, hefur tilkynnt að fyrirtækið hyggi á stórar fjárfestingar í Indlandi og segir að landið muni spila lykilhlutverk sem vaxandi markaðssvæði. Segir forstjórinn að Amazon muni fjárfesta fyrir 1 milljarð dollara í smáum og millistórum fyrirtækjum, og þannig gera þeim kleift að hefja starfsemi og sölu á netinu. BBC greinir frá þessu.

Á innanbúðar fundi Amazon í New Delhi, lét Bezos þau orð falla að 21 öldin verði „indverska öldin."

Dvöl Bezos í Indlandi hefur þó mætt nokkurri andstöðu. Þúsundir smásala í um 300 borgum hafa skipulagt mótmæli gegn Amazon, þar sem þeir telja Amazon hafa haft neikvæð áhrif á innlenda smásölumarkaðinn. Þá saka þeir Amazon um að vera markvisst að ýta þeim út af markaðnum, með því að bjóða aðeins upp á vörur fárra stórra smásala á vettvangi (e. platform) sínum. Amazon hefur hafnað þessum ásökunum.