Tveir íslenskir þingmenn höfðu haustið 2009 milligöngu um að leita íslenskra fjárfesta til þess að fjármagna að einhverju leyti gullleitarverkefni í Kólumbíu en til stóð að verkefnið hefðist á árunum 2009-2010. Bandarískur kaupsýslumaður, sem giftur er íslenskri konu, setti sig í samband við þá Tryggva Þór Herbertsson og Jón Gunnarsson og kynnti fyrir þeim verkefnið á þeirri forsendu að afrakstur verkefnisins myndi renna til þess að styrkja gjaldeyrisforða Seðlabankans.

Að sögn Morgunblaðsins stóð til að mikið lagt upp úr því að ræða aðeins við fjárfesta sem höfðu óflekkað mannorð í kjölfar hrunsins. Þeir fjárfestar sem fjárfestu í verkefninu skyldu fá 10-15% ávöxtun en restin rynni í gullforða Seðlabankans. Haldnir voru kynningarfundir á veitingastöðum höfuðborgarinnar og segist Morgunblaðið hafa heimildir fyrir því að einn þeirra hafi farið fram á Jómfrúnni við Lækjargötu.

Blaðið hefur eftir þeim Tryggva og Jóni að þeir hafi metið verkefnið sem trúverðugt og að það sé sjálfsagt að greiða leið fjárfestinga. Verkefnið hefði getað skilað hundruðum milljóna dollara í gjaldeyrisforðann. Ekkert varð þó úr því að íslenskir fjárfestar tækju þátt í þessu verkefni og er ekki vitað hvort það varð að veruleika.