*

laugardagur, 4. júlí 2020
Innlent 20. júní 2020 14:03

Boeing ekki í samningi við FÍA

Kjarasamningur við flugmenn felur ekki í sér, í raun, að Icelandair skuldbindi sig til að vera áfram á Boeing vélum að sögn forstjóra félagsins.

Jóhann Óli Eiðsson
Bogi Nils Bogason er forstjóri Icelandair.
Eva Björk Ægisdóttir

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir að félagið stefni að óbreyttu á að ríflega tvöfalda fjölda áfangastaða í leiðakerfi félagsins í næsta mánuði. Það velti þó á hvernig til tekst í baráttu við SARS-CoV-2 veiruna vestanhafs og hvort ytri landamæri Schengen-svæðisins verði opnuð á nýjan leik.

Í síðasta mánuði samþykkti hluthafafundur félagsins heimild til að hækka hlutafé þess um 30 milljarða króna. Stefndi félagið að því að ná að hnýta lausa enda fyrir upphaf þessarar viku svo að útboðið gæti farið fram í júnílok. Á mánudag barst hins vegar tilkynning til kauphallar þess efnis að þær áætlanir myndu ekki ganga eftir.

„Við þurftum að framlengja í þessu en markmiðið er enn að klára viðræðurnar, sem eru bæði flóknar og viðamiklar, við helstu aðila. Það er mikilvægt að klára öll þessi stóru mál fyrir útboðið til að skapa sem mesta vissu fyrir útboðið sem hefst þá í kjölfarið,“ segir Bogi.

Samningaviðræður við Boeing, um bætur vegna kyrrsetningar 737Max vélanna, standa yfir en flotamál Icelandair eru meðal þess hefur borið á góma í umræðum um stöðu félagsins. Hluti flotans er kominn vel til áranna og þá hefur því verið velt upp hvort hagstæðara sé fyrir það að færa sig yfir í Airbus vélar. Í liðnum mánuði náðust nýir kjarasamningar við flugmenn og var gert því skóna að í þeim fælist í raun og veru, þótt ekki væri kveðið sérstaklega á um það, að félagið héldi tryggð við Boeing.

„Það felst ekkert slíkt í samningunum. Við vorum að skoða möguleikann á Airbus en við þá vinnu þarf að taka tillit til kostnaðar við þjálfun flugmanna á nýrri tegund. Þá felst einnig kostnaður í breytingum og innleiðingum á nýjum ferlum. Þessar vangaveltur hafa verið settar á ís í þessu ástandi,“ segir Bogi. „Sem stendur er mjög gott að hafa eldri vélar í flotanum. Eignarhaldskostnaður er lítill, þær hagkvæmar í rekstri við núverandi aðstæður, henta leiðakerfinu vel og því kostar minna en annars að hafa þær kyrrsettar. En það eru mikil tækifæri í flotamálum þegar rofar til á ný.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: Icelandair Bogi Nils Covid-19