Greint var frá því í vikunni að flugvélaframleiðandinn Boeing hefði náð samningum um smíði 300 flugvéla fyrir kínverskan markað. Verðmæti samningsins er talið vera um 38 milljarðar dala eða um 4.832 milljörðum króna.

Forseti Kína, Xi Jinping tilkynnti um pöntunina þegar hann heimsótti verksmiðju Boeing í Washington, en hann er nú ásamt fylgdarliði í opinberri heimsókn í Bandaríkjunum.

Framkvæmdastjóri Boeing, Dennis Muilenburg þakkaði Xi Jinping fyrir pöntunina og sagði hana tákn um góð samskipti milli Bandaríkjanna, Kína og Boeing.

Boeing hefur verið í samkeppni við Airbus um að selja flugvélar til Kína en Boeing telur að kínverski markaðurinn muni þurfa flugvélar fyrir um það bil þúsund milljarða Bandaríkjadala á næstu tveimur áratugum.