Bæjarráð Bolungarvíkur hefur samþykkt að leggja til við bæjarstjórn að nýtt verði heimild til álagningar hámarksútsvars fyrir tekjuárið 2009, eða 13,28%.

Auk þess samþykkir bæjarráð 5% álag á útsvar þar sem Eftirlitsnefnd leggi með fjármálum sveitarfélaga slíkt álag til við ráðuneyti sveitarstjórnarmála. Útsvarsprósenta fyrir tekjuárið 2009 verður því 13,94%.

Þetta kemur fram á vef Bæjarins Bestu (bb.is) en reiknað er með að slíku álagi verði beitt tímabundið í tvö ár.

Í frétt bb.is kemur fram að þegar þessi tillaga var lögð fyrir bæjarráð sat fulltrúi á vegum Eftirlitsnefndar sveitarfélaga fundinn ásamt fjármálastjóra Bolungarvíkur.

Eins og greint hefur verið frá var á Alþingi á dögunum lagt fram stjórnarfrumvarp um ráðstafanir í ríkisfjármálum, þar sem gert er ráð fyrir því að leyfilegt hámark útsvarsprósentu hækki úr 13,03% í 13,28%.

Í dag rennur út frestur sveitafélaga til þess að ákveða nýja útsvarsprósentu og tilkynna hana til fjármálaráðuneytisins.