Borðstofan er nýr hádegisverðarstaður sem staðsettur er í Hannesarholti á Grundarstíg 10. Sveinn Kjartansson, eigandi Borðstofunnar, segir að boðið verði upp á meðvitaða matargerð þar sem hollur matur er í fyrirrúmi. A hverjum degi verður boðið upp á fiskrétt og grænmetisrétt, kjötréttir verða stundum á boðstólum ásamt sætmeti.

Veitingastaðurinn opnaði á þriðjudaginn og viðtökurnar voru góðar að sögn Sveins.

Hannesarholt er hús Hannesar Hafstein, sem lét reisa það og bjó þar síðustu ár ævi sinnar.

„Þetta er guðdómlega fallegt og sögulegt hús. Það er líka gaman að hafa hverfisveitingahús hér í Þingholtunum, það er ekki eitthvað sem tíðkast.“ Til að byrja með verður staðurinn eingöngu opinn að degi til en Sveinn segir að það komi vel til greina að breyta því í framtíðinni.