Skrifað hefur verið undir samning milli Jóns Auðunar Jónssonar hrl., skiptastjóra þrotabús útgerðarfyrirtækisins Festar ehf. í Hafnarfirði og eigenda Útgerðarfélagsins Völusteins ehf., um að Útgerðarfélagið Völusteinn ehf. kaupi allan rekstur og eignir þrotabúsins, sex báta, fiskvinnslu og aflaheimildir.  Kaupverðið er 3,2 milljarðar króna. Útgerðarfélagið Völusteinn ehf. er í eigu Ólafs Jens Daðasonar skipstjóra og Gunnars Torfasonar sjávarútvegsfræðings.

Í tilkynningu kemur fram að fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans annaðist sölu þrotabúsins í umboði skiptastjóra. Tilhögun sölunnar var kynnt með auglýsingu 4. desember. Mikill áhugi var á eignunum og óskuðu 104 aðilar eftir gögnum um þær og bárust skiptastjóra 36 óskuldbindandi tilboð. Hæstbjóðendum var boðið að leggja fram bindandi kauptilboð, og bárust 5 tilboð þann 23. desember. Að undangengnu mati skiptastjóra á þeim tilboðum og áreiðanleika fjármögnunar tilboðsgjafa, var gengið til samningaviðræðna við Útgerðarfélagið Völustein ehf. og  skrifað undir kaupsamning 29. desember.

Taka við rekstrinum um áramót

Útgerðarfélagið Völusteinn ehf. tekur við rekstri þrotabúsins frá og með áramótum. Eigendur hafa lýst því að reksturinn verði endurskipulagður strax í janúar, að fiskvinnslan verði áfram starfrækt í Hafnarfirði og að kappkostað verði að verja þau störf sem fyrir eru.

Fyrir gerir Útgerðarfélagið Völusteinn út línubátinn Hrólf Einarsson ÍS 255 frá Bolungarvík. Með kaupum Útgerðarfélagsins Völusteins ehf.  á rekstri og eignum þrotabús Festar verða aflaheimildir fyrirtækisins 1.988 þorskígildi.