Hæstiréttur Íslands kvað í október upp dóm um að skrá beri vatnsréttindi jarðeigenda við Jökulsá á Dal í fasteignaskrá. Nú hefur Þjóðskrá Íslands lokið við að meta réttindin til fjár. Á vef RÚV kemur fram að þau séu metin á 2.326 milljónir króna. Þar eru um 1.740 milljónir innan sveitarfélagsins Fljótsdalshéraðs en 586 milljónir innan Fljótsdalshrepps.

Þetta þýðir að nú geta sveitarfélögin innheimt fasteignagjöld af réttindunum en vegna Kárahnjúkavirkjunar er eigandi þeirra Landsvirkjun. Telur sveitarstjóri Fljótsdalshérað að sveitarfélagið muni fá um 15 til 20 milljónir króna árlega í greiðslur frá Landsvirkjun vegna þessa. Samkvæmt dómi Hæstaréttar á sveitarfélagið nú þegar inni greiðslur fyrir síðustu þrjú ár.