Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ) hefur samið við fyrirtækið Borgarbrag um að leiða vinnu við gerð hagkvæmniskönnunar vegna hugsanlegrar uppbyggingar nýs leikvallar í Laugardal. Þetta kemur fram í frétt á vef KSÍ.

Þar fagnar KSÍ þeirri umræðu sem hefur átt sér stað síðustu daga í tengslum við mögulega stækkun nýs Laugardalsvallar. Hins vegar ítrekar sambandið að verkefnið sé á frumstigi og ótal spurningum sé enn ósvarað um hvort raunhæft sé að ráðast í verkefni af þessari stærðargráðu á Íslandi.

Einnig áréttar KSÍ að fjölmargir hagsmunaaðilar eigi hlut að máli auk þess sem eignarhald vallarins sé að stærstum hluta í höndum Reykjavíkurborgar. Eðli málsins samkvæmt verði ekki aðhafst í málinu nema með samþykki borgarinnar og að höfðu samráði við aðra hagsmunaaðila.

Pétur Marteinsson, annar eigenda Borgarbrags, verður í forsvari fyrir verkefnið. Áætlað er að frumniðurstöður liggi fyrir í byrjun desember.