Skrifstofa Jóns Gnarr borgastjóra verður frá og með mánudegi eftir helgi og næstu þrjár vikur á eftir í Breiðholti. Skrifstofa borgarritara verður þar sömuleiðis og mun borgarráð halda fundi sína þar. Markmiðið með flutningnum er að embættismenn borgarinnar kynnist víðtækri starfsemi borgarinnar í Breiðholti frá fyrstu hendi. Skrifstofa borgarstjóra verður í Gerðubergi.

„Ég hef í starfi mínu sem borgarstjóri tekið vaktir með lögreglunni, sorphirðunni, slökkviliðinu og fleirum. Það hefur verið gríðarlega gefandi og fræðandi. Nú ætla ég að prófa að eyða tíma mínum í öðru hverfi. Þetta er merkileg tilraun og ég hlakka til að sjá hvernig til tekst,“ segir Jón Gnarr borgarstjóri.

Fram kemur í tilkynningu frá borgarstjóra að hann muni gera víðreist í öllum hverfum Breiðholts til að kynna sér starfsemina  í þessu fjölmennasta hverfi borgarinnar. Í Breiðholti búa 20.600 íbúar, en þar af er hlutfall innflytjenda 10,2%. Í öðrum hverfum er hlutfall innflytjenda um 8% að meðaltali.