Tillögu Sjálfstæðisflokksins um að Malbikunarstöðin Höfði yrði sett í söluferli var vísað frá í borgarstjórn í gærkvöldi. Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins greinir frá þessu í fréttatilkynningu.

Í tillögu Sjálfstæðisflokksins segir að eignarhald borgarinnar á Malbikunarstöðinni skekki samkeppnisstöðu fyrirtækja á sama markaði, sem samræmist ekki sjónarmiðum um heilbrigða samkeppni.

„Það er skrýtið að flokkar sem tala um forgangsröðun í þágu félagslegra úrræða skuli vilja seta peningana í malbikunarstöð. Það er líka skrýtið að flokkur eins og Viðreisn skuli vilja halda í Malbikunarstöðina. Og það er stórundarlegt að þessir fjórir flokkar sem gerðu málefnasamning, sem heitir því undarlega nafni meirihlutasáttmáli, þar sem að stendur að það eigi að skoða sölu á Malbikunarstöðinni Höfða, hafi ekkert gert í því í þrjú ár," sagði Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins, í ræðu sinni í borgarstjórn og bætti við að nú væri tækifæri fyrir borgarstjórn að sameinast um að létta byrðar á Reykvíkingum áður en hún kæmi samstæðu borgarinnar í enn frekari skuldir, en borgin ráðgerir að flutningar stöðvarinnar kosti tæplega tvo milljarða króna.

Malbikunarstöðin er í dag staðsett á Sævarhöfða en það stendur til að færa starfsemi stöðvarinnar á iðnaðarsvæði að Esjumelum. Malbikunarstöðin er í eigu Borgarsjóðs Reykjavíkur og borgarfyrirtækisins Aflvaka. Malbikunarstöðin Höfði starfar í samkeppni við þrjú fyrirtæki sem eru í einkaeigu.

Eyþór bætti við í ræðu sinni að sú þögn sem ríkti í kringum Malbikunarstöðina væri undarleg.

„Það er undarleg þögn í kringum þetta mál, eina sem við höfum frétt er að Höfði hafi verið í vandræðum með framleiðslu sína og síðan var skipt um stjórnarformann og engar sérstakar skýringar gefnar á því. En við höfum ekkert fengið að vita hvað á að gera," sagði Eyþór og bætti við að borgarfulltrúarnir 23 í borgarstjórn og Reykvíkingar sjálfir ættu heimtingu á því að vita hver áætlun borgarstjórnar væri í kringum Malbikunarstöðina.

Í greinargerð með tillögunni er bent á að Samtök iðnaðarins og Viðskiptaráð Íslands hafi skorað á borgina í síðustu viku að nýta tækifærið og losa sig út úr rekstri Malbikunarstöðvarinnar Höfða.

„Með eignarhaldi Reykjavíkurborgar á Malbikunarstöðinni Höfða hf. skapar borgin hagsmunaárekstur sem grefur undan frjálsri samkeppni. Þrátt fyrir að Malbikunarstöðin Höfði sé verðmætt fyrirtæki geta skapast þær aðstæður að reksturinn verði þyngri og erfiðari sem skapar sveiflur og áhættu fyrir skattgreiðendur," segir jafnframt í greinargerð með tillögunni.