Þrátt fyrir að nýjustu tölur Hagstofunnar sýna að fjöldi fólksbíla á hverja 1.000 íbúa hafi aldrei verið hærra á sama tíma og mælingar Vegagerðarinnar sýni stigvaxandi aukningu meðalumferðar í borginni gerir Reykjavíkurborg ráð fyrir 20% fækkun bifreiða í borginni við skipulag nýrra byggingarreita.

Tveggja ára gamlar tölur sýna mikla aukningu bíla

Í deiliskipulagsgögnum um fyrirhugaða uppbyggingu á svokölluðum RÚV-reit við Efstaleiti er fullyrt að núverandi gatnakerfi umhverfis reitinn þoli vel þá aukningu sem gert er ráð fyrir.

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag, en tölurnar um bílafjöldann eru frá árinu 2014 en þá voru 671,2 fólksbílar á hverja 1.000 íbúa í landinu.

Gera ráð fyrir að markmið náist í stað raunaukningar

Markmið Reykjavíkurborgar sem gengið er út frá í skipulaginu er að bifreiðum fækki um fimmtung vegna breyttra ferðavenja. Á svæðinu er gert ráð fyrir 361 íbúð og að meðaltali 2,4 einstaklingum á hverja íbúð.

Gerir borgin því ráð fyrir um 866 íbúum á svæðinu, sem þýðir þá rúmlega 580 bíla ef hlutfallið frá 2014 haldist.

Ákvörðun borgarráðs kærð

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindarmála hefur borist kæra vegna þessarar ákvörðunar borgarráðs, en Halldór Blöndal, fyrrverandi forseti Alþingis og einn íbúa á svæðinu segir að þeir geri alvarlegar athugasemdir við íbúðafjöldann og þá miklu byggðaþéttingu sem er þarna fyrirhuguð.

„Byggingarmagn á reitnum er langt umfram það sem íbúar svæðisins máttu vænta samkvæmt áður gildandi skipulagsáætlunum,“ segir Halldór í samtali við Morgunblaðið, en hann segir þarna um rýrnun á gæðum og verðmætum nálægra eigna að ræða.

„Hin mikla fjölgun sem verður í nærumhverfi okkar hefur í för með sér gífurlega aukningu á umferð og mengun, skort á bílastæðum og önnur óþægindi.“